Karlmennskan

Þorsteinn V. Einarsson

Karlmennskuhugmyndir og viðfangsefni sem hafa snertiflöt við karla, jafnrétti eða karlmennsku eru til umfjöllunar í þessu hlaðvarpi. read less
Society & CultureSociety & Culture
EducationEducation
NewsNews
PoliticsPolitics

Episodes

124 „Eins og það sé körlum ekki eðlislægt að sjá skít“ Ragnheiður Davíðsdóttir
Jun 19 2023
124 „Eins og það sé körlum ekki eðlislægt að sjá skít“ Ragnheiður Davíðsdóttir
„Hægt og rólega verður mylsna á borði til misskiptingar, sem [hann] tekur jafnvel ekki eftir“, er lýsandi setning úr ritgerð Ragnheiðar Davíðsdóttur sem rannsakaði hugræna vinnu meðal íslenskra para í meistararaverkefni sínu í kynjafræði við Háskóla Íslands. Líklega er þetta fyrsta íslenska rannsóknin sem mælir hugræna vinnu og niðurstöður eru í samræmi við reynslu sem ansi margar konur hafa lýst og erlendar rannsóknir hafa dregið ítrekað fram. Verkaskipting hugrænnar vinnu er bæði misskipt og kynjuð. Mæður í gagnkynhneigðum samböndum báru meiri hugræna byrði en feður. Mat viðmælenda á verkaskiptingu virtist bjagað, hefðbundin kvennastörf voru vanmetin en karlastörf ofmetin og pörin leituðust við að réttlæta misskiptinguna með ýmsum hætti og leituðust þannig við að falla að félagslega viðurkenndum jafnréttis- og réttlætishugsjónum.   Ragnheiður segir frá rannsóknarferlinu og fjallar nokkuð ítarlega um helstu niðurstöður sem vægast sagt eru afar áhugaverðar. Þá finnst mér við hæfi að draga fram að einkunn Ragnheiðar fyrir ritgerðina var 9,5 sem endurspeglar hversu vel þessi ritgerð var unnin, fræðilega vel undirbyggð og rannsóknarniðurstöður settar í fræðilegt samhengi. (Hægt er að ná á Ragnheiði í gegnum ragnheidurd96@gmail.com)    Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson Tónlist: Mr. Silla - Naruto (án söngs)   Bakhjarlar karlmennskunnar bjóða upp á þáttinn og þú getur gerst bakhjarl á karlmennskan.is/styrkja
116. „Ég er ekki sammála því“ - Þórarinn Hjartarson
Feb 23 2023
116. „Ég er ekki sammála því“ - Þórarinn Hjartarson
Þórarinn Hjartarson stjórnmálafræðingur og nemi í MPA í opinberri stjornsýslu, hnefaleikaþjálfari og starfsmaður á sambýli heldur úti hlaðvarpinu Ein pæling og sendir reglulega frá sér skoðanapistla sem hafa verið birtir á Vísi. Það má líklega segja að skoðanir, fullyrðingar og afstaða Þórarins í þessum pistlum séu í andstöðu við femíníska hugmyndafræði enda er hann oft að hæðast að málefnum jaðarsettra eða því sem hann kallar „woke-isma”. Ég tel að sjónarmið Þórarins endurspegli viðhorf ansi margra sem eru orðnir þreyttir á byltingum og baráttum sl ára, sem telja sig geta valið hlutleysi gagnvart samfélagsmálum í skjóli eigin forréttindafirringar og langar því að fá að forvitnast nánar um sjónarhorn og afstöðu manns sem er að mörgu leiti á skjön við mitt eigið.  Tilgangurinn með þættinum er að varpa ljósi á viðhorf einstaklings sem er gagnrýninn á femíníska baráttu og bjóða upp á samtal tveggja einstaklinga sem eru ósammála í flestum málum, þrátt fyrir líka félagslega stöðu. Ætli megi ekki segja að hér séu tveir bergmálshellar að mætast og eiga samtal um völd, fjármögnun hins opinbera, Woke-isma, jafnrétti, femínisma, tjáningarfrelsi, forréttindi og skoðanir.   Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson Tónlist: Mr. Silla - Naruto (án söngs)   Veganbúðin, ÖRLÖ og BM Vallá ásamt bakhjörlum Karlmennskunnar bjóða upp á þáttinn.
115. „Klám er helsta kynfræðsla barna, sem vinnur gegn kynfrelsi“ - María, Kristín og Eygló
Feb 15 2023
115. „Klám er helsta kynfræðsla barna, sem vinnur gegn kynfrelsi“ - María, Kristín og Eygló
Bylting framhaldsskólanema gegn kynferðisofbeldi og gagnrýni á viðbragðsleysi skólastjórnenda ýtti undir kröfu um aukna kyn- og kynjafræðikennslu í skólum auk almennilegra viðbragða þegar kynferðisbrot koma upp. Skólameistarar ruku sumir hverjir upp og bundu vonir við að fram kæmu leiðbeiningar til að tækla slík mál. Sérfræðingar í jafnréttis- og ofbeldisforvarnarmálum sögðu þó hægan hægan. Engin skyndilausn væri við jafn flóknum og útbreiddum vanda sem kynferðisofbeldi er, auk þess sem skólar geti ekki tekið að sér hlutverk réttarkerfisins. Finna þurfi aðra og betri nálgun. Í raun algjöra kerfisbreytingu.   María Hjálmtysdottir, Kristín Blöndal Ragnarsdóttir og Eygló Árnadóttir hafa starfað við jafnréttismál, kynjafræðikennslu, sitja í stjórn félags kynjafræðikennara og mynda fagteymi utan um fræðslu og forvarnir framhaldsskóla vegna kynferðisofbeldis. Þær fara yfir ástæður þess að skyndilausnar-viðbragð við kynferðisofbeldis virkar ekki í skólakerfinu, útskýra hversu mikilvægt er að samþætta kyn- og kynjafræðikennslu og stórefla hana, ræða alvarleika kláms og áhrifamikilla karlrembna í samskiptum ungs fólks og gefa okkur innsýn í menningu ungmenna í dag.    Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson Tónlist: Mr. Silla - Naruto (án söngs)   Veganbúðin, ÖRLÖ, BM Vallá ásamt bakhjörlum Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja) bjóða upp á þennan þátt.
#113 „Réttlæti fyrir brotaþola er að geta haldið áfram að lifa í sínu samfélagi“ - Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir og Elín Björk Jóhannsdóttir
Feb 1 2023
#113 „Réttlæti fyrir brotaþola er að geta haldið áfram að lifa í sínu samfélagi“ - Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir og Elín Björk Jóhannsdóttir
Recognising Sexual Violence: Developing Pathways to Survivor-Centred Justice hét ráðstefna sem haldin var í lok október sl. af RIKK (rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands) í samstarfi við háskólana í Lundi og Osló. Rannsóknir á reynslu og hugmyndum þolenda kynferðisbrota sýna að réttlæti er mun flóknara en svo að eingöngu sé hægt að styðjast við réttarkerfið; hegningarlög og refsirétt. Auk þess má réttilega segja að réttarkerfið nái afar illa utan um kynferðisbrot eins og reynsla þolenda hefur sýnt fram á. Markmið ráðstefnunnar var að draga fram hvernig þolendamiðað réttlæti getur litið út, sem krefst þess að við endurhugsum ólík réttlætiskerfi og þróum pólitískar, félagslegar og lagalegar leiðir að réttlæti. Til þess að ræða þetta nánar spjallaði ég við Elínu Björk Jóhannsdóttur verkefnisstjóra hjá RIKK, skipuleggjanda ráðstefnunnar og Steinunni Gyðu og Guðjónsdóttur talskonu Stígamóta sem sat ráðstefnuna og hefur starfað með þolendum í rúman áratug. Á meðal spurninga sem við leitum svara við eru: Hvers vegna gengur ekki að vera með viðbragðsáætlun í skólum sem grípa má til þegar upp koma kynferðisbrot? Hvað er félagslegt réttlæti, uppbyggileg réttvísi og umbreytandi réttlæti? Hvernig geta skólar og vinnustaðir brugðist við þegar upp koma kynferðisbrot? Hvers vegna ættu gerendur að taka þátt í ábyrgðarferli og gangast við brotum sínum? Umsjón: Þorsteinn V. Einarsson Tónlist: Mr. Silla - Naruto (án söngs) Veganbúðin, ÖRLÖ, BM Vallá ásamt bakhjörlum Karlmennskunnar (karlmennskan.is/styrkja) bjóða upp á þennan þátt.